Líkur á því að Ísland taki upp evruna á einn eða annan hátt hafa aukist verulega, að mati greiningardeildar fjárfestingarbankans Lehman Brothers, en bankinn gaf nýlega út skýrslu um íslenska hagkerfið.
Segir þar m.a. að reyni Seðlabanki Íslands að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að ná fram hækkun á gengi krónunnar muni markaðurinn líklega streitast á móti og niðurstaðan yrði frekari lækkun krónu gagnvart evru. Haldi Seðlabankinn hins vegar að sér höndum gæti gengið jafnað sig innan tíðar.
Segir Lehman því að vaxtahækkun í dag muni lítið hjálpa gengi krónunnar, en bankinn gerir samt ráð fyrir því að Seðlabankinn hækki vexti í dag til að festa trúverðugleika sinn í sessi.