Lögreglan dragi úr eldsneytisnotkun

Gert er ráð fyrir að lögregluembætti landsins kaupi eldsneyti fyrir um 100 milljónir króna á þessu ári. Í fyrra námu innkaup á eldsneyti um 74 milljónum króna en um 81 milljón árið 2006. Í nýju dreifiriti ríkislögreglustjóra segir að mikilvægt sé að draga úr eldsneytisnotkun eins og hægt er.

Jónas Ingi Pétursson, fjármála- og rekstrarstjóri ríkislögreglustjóraembættisins, segir að verið sé að höfða til skynsemi ökumanna og benda á að aksturslag hafi áhrif á eldsneytisneyslu sem og lausagangur bifreiða og aðrir þættir. „Rekstur ökutækjanna er á ábyrgð þess lögregluembættis sem hefur ökutækið til umráða,“ tekur Jónas fram.

Í dreifiriti ríkislögreglustjóra segir jafnframt að lögreglan eigi og reki um 170 ökutæki sem ekið er um 5,5 milljónir kílómetra á ári. Fjölga á bifhjólum hjá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu úr 10 í 14 í því skyni að efla umferðareftirlit en sérstakt umferðar- og hraðaeftirlit er að hefjast þessa dagana um allt land samkvæmt samstarfssamningi milli Umferðarstofu og ríkislögreglustjóra.

Að þessu sinni á að verja 37 milljónum króna til verkefnisins. Leggja á áherslu á eftirlit á þjóðvegum í dreifbýli og þar sem hraðakstur og slys eru tíð.

Markmiðið með framtakinu, sem stendur til 30. september, er að fækka slysum og óhöppum í umferðinni og stemma stigu við ofsaakstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert