Ragnar Atli Guðmundsson, verkefnisstjóri um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni í Reykjavík, kynnti í dag hugmynd að útliti stöðvarinnar á morgunfundi um framtíð Reykjavíkurflugvallar í flugskýli Geirfugls.
Ætlunin er að fyrsta skóflustungan verði tekin í byrjun næsta árs og að framkvæmdum við fyrsta áfanga ljúki árið 2010. Stefnan er að síðari áfanganum ljúki svo árið 2016 og að afgreiðslugetan fari þá úr rúmlega milljón viðskiptavinum á ári í um tvær milljónir.
Gert er ráð fyrir um þúsund bílastæðum við miðstöðina og er gengið útfrá því að jafnvel þótt flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni verði hægt að anna samgöngum á landi eða jafnvel sinna þjónustu henni óviðkomandi í framtíðinni. Endanlegt kostnaðarmat liggur ekki fyrir.