Samtök dæmd til að greiða starfsmanni laun

Hæstiréttur hefur dæmt samtökin Veraldarvini til að greiða fyrrum starfsmanni samtakanna tæpar 5,7 milljónir króna í laun fyrir nærri tveggja ára tímabil. Samtökin sögðu, að starfsmaðurinn hefði verið sjálfboðaliði en starfsmaðurinn taldi sig hafa gert samning um að hann fengi 250 þúsund króna laun á mánuði.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að samtökin og framkvæmdastjóri þeirra skyldu greiða manninum sameiginlega umrædd laun. Hæstiréttur sýknaði hins vegar framkvæmdastjórann og taldi ekki sannað að hann hefði fengið manninn til starfa með vísvitandi blekkingum og loforðum um greiðslu, sem hann ætlaði ekki að standa við.

Veraldarvinir eru frjáls félagasamtök, sem voru stofnuð árið 2001. Haft er í héraðsdómi eftir forsvarsmönnum samtakanna að markmið þeirra sé að stuðla að vináttu manna, heilbrigðum lífsháttum og bættri umgengni manna við umhverfið og þessum markmiðum nái samtökin meðal annars með alþjóðlegu samstarfi, sjálfboðaliðastarfi einstaklinga og með skipulagningu á umhverfisverkefnum í samvinnu við sveitarfélög og frjáls félagasamtök á Íslandi.

Verkefni samtakanna hér á landi hefur meðal annars verið þau að hreinsa strandlengjur landsins, planta trjám og stunda uppgræðslu lands. Til að sinna þessum verkefnum myndi samtökin hópa sem samanstandi af einstaklingum víðs vegar að úr heiminum sem komi gagngert til Íslands til þess að liðsinna við þessi verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka