Bankinn laus við alla ábyrgð

Í Sandgerðishöfn.
Í Sandgerðishöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

„Glitnir, sem hefur verið áskrifandi að fjármögnunarverkefnum sveitarfélaga sem eiga aðild að Fasteign, hefur engar skyldur þegar á reynir. Þeir geta bara hlaupist undan ábyrgð og skilið sveitarfélögin eftir með sárt ennið.“ Þetta segir Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi A-lista í Reykjanesbæ.

Eins og sagt var frá í 24 stundum í gær hefur eignarhaldsfélagið Fasteign hf. átt í erfiðleikum með að fá fjármagn fyrir nýframkvæmdum, en félagið er meðal annars í eigu tíu sveitarfélaga og Glitnis banka. Hefur því verið lögð fram sú tillaga á fundi bæjarstjórnar Sandgerðis að bærinn taki lán og framláni það Fasteign, til að félagið geti hafið stækkun grunnskóla bæjarins en leigt bænum húsnæðið.

Svipuð hugmynd hefur verið rædd á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar, en í fundargerð frá 14. febrúar sl. er bæjarstjóra falið að vinna að stofnun „nýs félags í eigu nokkurra sveitarfélaga, sem hefur þann tilgang að opna möguleika eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. á lánsfé hjá Lánasjóði sveitarfélaga.“

Fasteign var stofnað af Reykjanesbæ og Glitni árið 2003 og keypti þá allar opinberar byggingar í bænum, en bærinn leigir þær af félaginu. „Rökin fyrir stofnun félagsins voru þau að Fasteign ætti auðveldara með að fá lán og gæti fengið þau á betri kjörum en Reykjanesbær,“ segir Guðbrandur. „Nú eru þau rök fokin út í veður og vind.“

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og varaformaður í stjórn Fasteignar, segir þá sem þekkja til reksturs félagsins hafa trú á því. „Félagið var stofnað til að sérþekking á þessu sviði fengi notið sín.“ Hann segir það hafa margborgað sig fyrir bæinn að taka þátt í félaginu; það hafi klárað framkvæmdir með hagstæðari hætti en annars væri mögulegt og staðist tímaáætlanir mun betur en gengur og gerist við opinberar framkvæmdir.

Boðist hagstæð lánskjör

Þá hafi stærðarhagkvæmnin valdið því að Fasteign hafi fengið hagstæðari lánskjör en Reykjanesbæ hefði einum og sér boðist. „Hins vegar hefur þetta félag, rétt eins og önnur fyrirtæki á Íslandi, fundið fyrir því að bankakerfið er næstum því lokað.“

Hann bendir á að Lánasjóður sveitarfélaga hafi ekki síður en aðrir átt erfitt með að fá lánsfé erlendis frá og nái því ekki að lána fyrir öllum þeim umsóknum sem liggja fyrir.

Árni segir að Reykjanesbær hafi enn sem komið er ekki sótt lánsfé fyrir hönd Fasteignar til Lánasjóðs sveitarfélaga. „En það er sjálfsagt að gera ef þörf verður á því. Það er ekkert óeðlilegt, heldur bara útfærsluatriði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert