Bannað að miðla upplýsingum um sjúkling

Sjúkrahúsinu á Akureyri var óheimilt að miðla upplýsingum um sjúkling til Capacent Gallup, samkvæmt úrskurði stjórnar Persónuverndar. Sjúklingurinn kvartaði til Persónuverndar en hann hafði legið á sjúkrahúsinu. Þegar hann  útskrifaðist fékk hann bréf um að  Capacent Gallup myndi hafa samband við hann símleiðis vegna könnunar á þjónustu sjúkrahússins. Var tekið fram að ef hann vildi ekki að fyrirtækið hefði samband við sig gæti hann haft samband við læknaritara hjá sjúkrahúsinu.

Persónuvernd segir, að samkvæmt lögum sé vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil byggi hún á samþykki hins skráða. Vinnsla almennra persónuupplýsinga geti verið heimil hafi hinn skráði ótvírætt samþykkt hana, s.s. með athöfn eða eftir atvikum athafnaleysi. Ef um viðkvæmar upplýsingar er að ræða sé hins vegar gerður áskilnaður um yfirlýst samþykki.

Persónuvernd segir að í þessu máli hafi sjúklingnum verið veittur kostur á að koma því á framfæri við sjúkrahúsið væri hann því andvígur að upplýsingar um sig bærust Gallup. Af ákvæði laganna leiði, að ekki verði litið svo á að einstaklingur hafi samþykkt miðlun viðkvæmra upplýsinga með því að láta hjá líða að andmæla henni.

Úrskurður Persónuverndar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert