Brestur í meirihlutasamstarfi í Dalabyggð

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar var í gærkvöldi lögð fram tillaga frá H-lista, sem er annar af samstarfsflokkunum í sveitarstjórn, að Gunnólfi Lárussyni sveitarstjóra yrði sagt upp störfum og nýr sveitarstjóri ráðinn. Gunnólfur er oddviti N-listans sem á sínum tíma gerði kröfu um að hann yrði sveitarstjóri, að því er segir í frétt á vef Skessuhorns.

 Þórður Ingólfsson oddviti H-lista segir í samtali við Skessuhorn að hann geri ráð fyrir að tillagan verði samþykkt á bæjarstjórnarfundi eftir viku.

Aðspurður segir Þórður að sér sýnist að samstarfið sé brostið. „Því miður. Fyrir tveimur árum sóttum við fast að ráðinn yrði sveitarstjóri en gáfum eftir því að N-listinn vildi að Gunnólfur gegndi því starfi. Nú finnst okkur að þeir geti gefið eftir og ráðið annan sveitarstjóra. Við höfum imprað á því við Vinstri græna hvort þeir séu tilbúnir í viðræður. Þær eru hins vegar ekki hafnar og ekkert sem segir að samningar náist ef þær fari í gang. Tíminn verður bara að leiða það í ljós. Við munum hins vegar ekkert fara í fýlu þótt hinir flokkarnir semji. Það sem skiptir máli er að áfram verði samstarfsfriður eins og verið hefur.“

Þorgrímur E. Guðbjartsson oddviti Vinstri grænna, segir að óformlega hafi verið komið að máli við þau af hendi H-lista fólks. Aðspurður sagði Þorgrímur að Vinstri Grænir væru tilbúnir í viðræður við hvorn aðilann sem væri.

Gunnólfur Lárusson sveitarstjóri kannast við það ákvæði í samstarfssamningnum að endurskoða eigi ráðningu sveitarstjóra eftir tvö ár, eða 15. júní í samtali við Skessuhorn.

„Mér finnst ekkert óeðlilegt að það sé gert. Hins vegar hélt ég að þegar allt væri í fullum gangi, miklar framkvæmdir, blómstrandi mannlíf og sátt í samfélaginu þá færu menn ekki að breyta um. Það er eins og að skipta um hest í miðri á.

Við erum að klára ýmis mál og því var gott að fresta afgreiðslu tillögunnar í gær. Það er gífurleg vinna framundan og ég held að menn geri sér kannski ekki grein fyrir því að ef ég hætti núna, þá gerist fátt á meðan. En hins vegar er það greinilegt að samstarfið er brostið og við munum líklega tala við Vinstri græna um samstarf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert