Neyslumunstur íslenskra fíkla er breytt frá því sem var. Meira er um blandaða neyslu og örvandi vímuefni eru enn í sókn. Afleiðingin er sú að fíklarnir verða fyrr veikir og mun veikari. Félagslegum vandamálum fjölgar og sífellt fleiri verða óhæfir til þátttöku í samfélaginu. Á meðan fást ekki fjárveitingar til að sinna málaflokknum með viðunandi hætti.
„Neyslan endurspeglar framboðið og frá 1995 hefur verið stanslaus aukning í neyslu amfetamíns,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, læknir hjá SÁÁ. Vandinn sé stór og afleiðingarnar hrikalegar.
Erfitt er að henda reiður á því hver er ástæðan fyrir þessari miklu neysluaukningu örvandi vímuefna. Fíknin fer ekki í manngreinarálit en af samtölum við fólk sem lifir og hrærist í meðferðarstarfi er ljóst að hún gengur í erfðir. Ef ekki eiginlegar erfðir, þá félagslegar. „Við erum að fá krakka, afkomendur fíkla, sem félagsmálakerfið hefur gjörsamlega brugðist, jafnvel frá fæðingu,“ segir Guðmundur Týr Þórarinsson, forstöðumaður Götusmiðjunnar. „Börn búa inni á heimilum þar sem er svoleiðis subbuskapur og viðbjóður, þau eru með ónýtar tennur og eiga engin almennileg föt.“
Í Morgunblaðinu í gær kom fram að tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað mikið á umliðnum árum en fjöldi starfsmanna stendur því sem næst í stað. Þar af hefur tilkynningum vegna vanrækslu barna fjölgað gríðarlega. Guðmundur segir ástandið hafa orðið til þess að ungum fíklum sé ekki sinnt. „Börnin eru því úti að skaða sjálf sig og samfélagið; látin hrærast um á einhverjum borðum fram yfir 18 ára aldur og þá eru nefndirnar lausar við þau.“ Hann fullyrðir að fíkniefnaneysla hafi aukist í yngri aldurshópunum. „Við erum gjörsamlega búin að missa sýn í þessum málaflokki.“
Ungt fólk á milli 20 og 25 ára er í miklum meirihluta þeirra sem lagðir eru inn á Vog og segir Valgerður marga eiga börn. Þegar það á við er afar mikilvægt að vernda börnin og hjálpa foreldrunum. Valgerður lofar starf barnaverndarnefnda og Félagsþjónustunnar sem hún segir sýna þessu fólki mikinn stuðning og skilning. „En þetta er stór vandi, afleiðingarnar hrikalegar og fjölskyldurnar og börnin, þ.e. allir þeir sem standa að virkum fíklum, oft í miklum erfiðleikum.“