Hæstiréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhald yfir rúmenskum karlmanni, sem var handtekinn á Keflavíkurflugvelli sl. sunnudag ásamt unnustu sinni með fjölda falsaðra greiðslukorta í fórum sínum. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður úrskurðað fólkið í gæsluvarðhald til mánudags.
Kortin, sem fólkið var með, voru óútfyllt kort, samskonar og greiðslukort en höfðu að geyma segulrönd. Voru kortin vandlega falin innan um klæðnað í ferðatöskum.
Lögreglan taldi að fólkið hefði ætlað að nota kortin í ólögmætum tilgangi og rannsaka þyrfti aðdragandi ferðar fólksins til landsins og tengsl þess við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða.
Hæstiréttur benti hins vegar á, að sakborningur yrði því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram væri kominn rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing sé lögð við. Lögreglan hafi ekki sýnt fram á hvaða brot hún telji fólkið hafa framið.