Góð reynsla er af breytingum á sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu að því er kemur fram í skýrslu, sem greiningarsvið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur unnið. Segir í skýrslunni, að þrátt fyrir smávægilega hnökra og ýmsar nýjungar hafi það ekki haft áhrif á gæði þjónustunnar.
Þrír mánuðir eru liðnir frá því breytingarnar voru gerðar. Segir í skýrslunni, að segja megi að menn standi skrefi framar en áður vegna nýs fjarskiptasambands milli sjúkraflutningamanna og læknis, gagnasendingu frá hjartastuðtækjum inn á sjúkrahús og aukins gæðaeftirlits með þjónustunni.
Breytingarnar hafa leitt til talsverðrar fækkunar tveggja bíla útkalla og læknir fer aðeins í um 5% af þeim fjölda útkalla, sem var fyrir breytingu eða 2,8 útköll að meðaltali á viku. Nær öll útköll læknis hafa verið vegna endurlífgunar. Afturkallaðar læknisboðanir voru margar í upphafi tímabilsins en hefur fækkað eftir því sem á líður.
Í skýrslunni segir þó, að almennt sé of snemmt að draga tölfræðilegar ályktanir um áhrif breytinganna út frá svo fáum útköllum.
Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að festa kaup á bifreið ætlaðri fyrir flutning læknis frá bráðamóttöku á vettvang. Unnið er að því að útvega bifreiðina jafnframt því að skipuleggja starfsemi tengda henni. Stefnt er að því að taka hana í notkun í haust.