Lúðvík: Niðurstaðan í takt við sjónarmið Samfylkingarinnar

Lúðvík Bergvinsson.
Lúðvík Bergvinsson.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segist vera ánægður með skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Segir Lúðvík niðurstöðu skýrslunnar vera í takt við sjónarmið Samfylkingarinnar um að þörf sé á heildarendurskoðun á lögreglustjóraembættunum áður en farið er í að breyta hjá einu embætti.

„Ríkisendurskoðun segir í skýrslunni að ef það eigi að breyta suðurfrá þá eigi að breyta alls staðar. Að mínu mati tekur Ríkisendurskoðun undir öll þau sjónarmið sem við höfum sett fram. Það er að segja, að fyrst verði mótuð heildarstefna áður en ráðist verði í breytingar á einstökum embættum. Það er það sem við höfum sagt og kallað eftir þeirri stefnumótun.

Styður ekki frumvarp um breytingar á lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum

Lúðvík segir að Samfylkingin muni ekki styðja frumvarp til laga um breytingar á lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum enda eigi það einungis um eitt embætti af mörgum.

„Ríkisendurskoðandi hvetur til þess að farið verði út í heildarendurskoðun og það hlýtur að vera verkefnið núna. Að fara í stefnumótun með lögreglustjórum um það hvernig skipa eigi löggæslu- og tollamálum til frambúðar. Það er okkar vilji, að málið sé skoðað heildstætt," segir Lúðvík.

Í annan stað þá vekur það sérstaka athygli að það er hvergi vegið að eða fundið að rekstri embættisins. Þannig að það virðist vera sem skýrslan sé nánast heilbrigðisvottorð, þ.e. gefur rekstrinum góða einkunn öfugt við það sem ráðherra hafði gefið í skyn.

Í þriðja lagi kemur fram í skýrslunni að samlegð hafi tryggt góðan árangur á embættinu. Bæði hvað varðar faglega og fjárhagslega. Þannig að þetta eru þau meginsjónarmið sem settum fram og það er tekið undir þau í skýrslunni,” segir Lúðvík.

Ráðuneytið skorti yfirsýn yfir reksturinn

Segir Lúðvík að í skýrslunni sé kallað eftir heildarendurskoðun á lögreglu- og tollamálum sem er í takt við sjónarmið Samfylkingarinnar. „Það vekur líka athygli að það er tekið fram í skýrslunni að ráðuneytið hafi ekki haft glögga sýn yfir rekstur embættisins. Líka að þarna séu samskiptaörðugleikar.”

Lúðvík segir að þetta kunni að skýra hvernig málið var sett fram í upphafi, ráðuneytið hafi ekki haft nógu góða yfirsýn yfir reksturinn á lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum.

Lúðvík segir að ljóst sé að lykilatriðið sé að móta heildarstefnu og ekki sé farið af stað með breytingar á einu embætti áður en sú mótun hafi farið fram. „Þegar ráðist er í svona breytingar þarf að gera það af yfirsýn, festu og vanda til verka.”

„Fyrst er að móta stefnuna, síðan að framfylgja henni. Þetta þarf að gera í sátt við starfsmenn og mér finnst Ríkisendurskoðandi vera kalla eftir faglegum og vönduðum vinnubrögðum í skýrslunni,” segir Lúðvík í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert