Merkingar grænmetis skoðaðar

Uppruni niðursneidds grænmetis í neytendaumbúðum frá Hollu og góðu ehf. er ekki tilgreindur á umbúðum vegna þess að hann er breytilegur eftir árstíðum, að sögn Mána Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Holls og góðs ehf. Á Alþingi var því haldið fram í fyrradag að reynt væri að villa um fyrir neytendum hvað varðar uppruna grænmetis.

„Grænmetið er allt unnið hér á Íslandi – skorið, hreinsað og blandað. Við fáum hráefnið þaðan sem það er best og sem næst okkur á hverjum árstíma,“ sagði Máni. Grænmetið getur því ýmist verið alíslenskt, einungis útlent eða blanda af íslensku og útlendu. Máni nefndi að þessa dagana væri fábreytt úrval af íslensku grænmeti og íslenskar gúrkur, tómatar og sveppir notað í bland við aðrar tegundir af erlendu grænmeti. Þegar líður á sumarið eykst hlutfall íslenska grænmetisins. „Við reynum að nota eins mikið af íslensku grænmeti og við getum, enda er það næst okkur og verður alltaf best.“

Á pakkningunum er tekið fram að grænmetið sé skolað með íslensku vatni. Máni sagði það ekki gert til að gefa í skyn að innihaldið væri íslenskt. „Það var mikið hringt og spurt hvort búið væri að þrífa salatið og eins hvort við notuðum aukefni. Merkingin er til að leggja áherslu á að salatið er þvegið úr íslensku vatni, án allra aukefna,“ sagði Máni.

Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvælasviðs Matvælastofnunar, sagði að þess væri ekki krafist í reglugerð um merkingu matvæla (503/2005) að tilgreint væri upprunaland grænmetis í neytendapakkningum. Samkvæmt 6. grein og 7. lið reglugerðarinnar er m.a. skylt að merkja matvæli þannig að fram komi „heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða seljanda með aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu.“

Samkvæmt 8. lið sömu greinar eiga að koma fram „upplýsingar um uppruna- eða framleiðsluland ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar réttan uppruna matvælanna“. Sigurður Örn taldi einkum 8. liðinn koma til álita og túlkunar í þessu sambandi. Hann sagði að það yrði skoðað betur í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hvernig þessum merkingum væri háttað og hvort brotið væri gegn reglugerð um merkingu matvæla.

Ein ábending um merkingu á grænmeti hafði borist Neytendastofu um miðjan dag í gær. Samkvæmt upplýsingum neytendaréttarsviðs Neytendastofu kom ábendingin frá athugulum neytanda og verður hún tekin til skoðunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert