Dæmdir kynferðisofbeldismenn munu ekki geta starfað við leik-, grunn- eða framhaldsskóla þegar ný lög um skólastigin taka gildi. Önnur umræða um lagafrumvörpin fór fram á Alþingi í gær en menntamálanefnd Alþingis leggur til að sömu reglur gildi um kennara og starfsmenn á öllum skólastigunum. Upphaflega var ekki gert ráð fyrir banni við ráðningu kynferðisofbeldismanna til starfa í framhaldsskólum en nefndin leggur til að því verði breytt, enda verði einstaklingar ekki lögráða fyrr en við 18 ára aldur.
Umsækjendum um störf í skólum verður skylt að framvísa sakavottorði eða gefa stjórnanda leyfi til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hafi viðkomandi gerst brotlegur við kynferðisbrotakafla hegningarlaga eða orðið uppvís að vörslu barnakláms er ekki leyfilegt að ráða hann til starfa.
Í nefndarálitinu er bent á misræmi í lögum um þá sem vinna með börnum. Þannig er gengið skemmra í barnaverndarlögum og aðeins bannað að ráða til starfa þá sem hafa brotið gegn börnum en í æskulýðslögum er ráðningarbannið víðtækara og nær líka til fólks sem hefur gerst brotlegt við fíkniefnalög.
Í skólafrumvörpunum má segja að farinn sé millivegur. Ekki er gerður greinarmunur á hvort viðkomandi hafi brotið gegn barni eða fullorðinni manneskju og ráðningarbannið nær ekki til fíkniefnabrota en skólastjórnendum þess í stað falið að leggja mat á það út frá sakavottorði.