Að beiðni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fer nú fram rannsókn á vegum Vinnueftirlits ríkisins á húsnæði Heilsugæslu Árbæjar. Beiðnin er tilkomin vegna gruns um að samband kunni að vera á milli ákveðinna veikindaeinkenna tveggja starfsmanna og ástands húsnæðis stöðvarinnar.
Rannsókn Vinnueftirlitsins hefur það í för með sér að loka verður tímabundið (allt að tvær vikur) u.þ.b. helmingi húsnæðis heilsugæslunnar. Engin heilsufarsleg áhætta er talin fylgja því að nota þann hluta húsnæðis sem ekki er til rannsóknar, að því er segir í tilkynningu.
Ráðstafanir gerðar til að tryggja starfsemi á nýjum stað
Til þess að halda þjónustu stöðvarinnar að mestu leyti óbreyttri frá því sem verið hefur verður lengdur sá tími sem læknar taka á móti sjúklingum, þannig að opið verður til kl. 20:00 alla virka daga, ef þurfa þykir. Fyrir utan þessa tilfærslu á opnunartíma munu einungis símatímar lækna falla niður á meðan hluta stöðvarinnar er lokað.
Leiði rannsókn í ljós að rýma þurfi húsnæðið varanlega, sem á þessari stundu er ekki talin ástæða til að ætla, hafa verið gerðar ráðstafanir til að koma starfseminni fyrir annars staðar þar til Heilsugæsla Árbæjar flytur í nýtt húsnæði. Áformað er að Heilsugæslan í Árbæ flytji í nýtt húsnæði fyrir 1. desember nk. Í undirbúningi er að flýta þeim flutningi.