„Það skýrist á næstu dögum hvort næst að leggja málið fram,“ sagði Geir Haarde forsætisráðherra eftir síðasta ríkisstjórnarfund. Þess er því enn beðið hvort nýtt frumvarp til eftirlaunalaga þingmanna og æðstu embættismanna verður lagt fram á þessu þingi.
Engin frumvarpsdrög hafa verið sýnd þingmönnum, eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir að lögunum yrði breytt. Þingmál Valgerðar Bjarnadóttur, Samfylkingu, sefur enn í allsherjarnefnd, en það gengur lengra en þær tillögur sem Ingibjörg Sólrún og Geir H. Haarde hafa ýjað að síðustu vikur.