Samfylkingin: Nauðsynlegt að taka úrskurð mannréttindanefndar alvarlega

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Samfylkingarinnar ítrekar þá afstöðu að nauðsynlegt sé að taka alvarlega úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um útfærslu kvótakerfisins hvað varðar úthlutunarreglur í sjávarútvegi og skorar á ríkisstjórn og Alþingi að bregðast við með endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta kemur fram í ályktun nefndarinnar.

„Nefndin bendir í þessum efnum á tillögur Jóhanns Ársælssonar um afnám gjaldfrjálsrar úthlutunar í áföngum á tuttugu árum þannig að á meðan njóti núverandi handhafar veiðiheimilda markaðsvirðis þeirra heimilda sem þeir missa. Með þessari aðferð er kerfið opnað og mannréttindi tryggð, en svo um búið að útgerðarfyrirtækin fá góðan aðlögunartíma og missa einskis af því fé sem þau hafa fest í heimildunum.
 
Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Samfylkingarinnar telur að ná þurfi samstöðu um viðbrögð af þessu tagi áður en svarfrestur íslenskra stjórnvalda í málinu rennur út 11. júní næstkomandi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert