Stela númerum og bensíni

Undanfarna daga hafa starfsmenn bensínstöðva orðið varir við að á bílum sem ekið er á brott án þess að greitt hafi verið fyrir bensín eru númer sem tilheyra ekki viðkomandi bílum. Þegar starfsmenn Skeljungs hringdu í eiganda eins bílnúmersins brá honum í brún, samkvæmt heimildum 24 stunda. Hann fór og kannaði ástandið á bíl sínum sem var í geymslu á vöktuðu svæði og komst þá að því að búið var að stela númeraplötunum af bílnum.

Brynjar Pétursson, sem sér um tjónamál hjá Olís, segir alltaf eitthvað um það að ökumenn stingi af án þess að greiða fyrir bensín. ,,Það hefur nýlega komið tvisvar fyrir að menn hafi verið á bílum með númeraplötur sem passa ekki við bílana. Við sáum einnig sama númerslausa bílinn koma þrisvar sinnum fyrr í vetur og stinga af.“

Ómar Jóhannsson, rekstrarstjóri þjónustustöðva hjá N1, segir menn koma með stolnar númeraplötur til að stela eldsneyti en þó ekki í miklum mæli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert