Sýslumanni ekki stætt á að synja nektarumsókn Goldfingers

Dómsmálaráðuneytið telur ósannað að fullyrðingar lögreglustjóra LRH þess efnis, að nektardansmeyjar séu oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa, eigi við um starfsemi Goldfinger. Hefur ráðuneytið því fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að synja Baltik ehf. um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á Goldfinger. Lögreglustjóri LRH var umsagnaraðili vegna leyfisumsóknar Goldfingers og telur dómsmálaráðuneytið að hún sé háð verulegum annmörkum og leiði það til ógildingar á ákvörðun sýslumanns.

Þegar sýslumaður neitaði að gefa Goldfinger leyfi fyrir nektardansi, var ákvörðunin kærð til dómsmálaráðuneytisins af hálfu Goldfingers sem taldi lögreglustjóra hafa farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Honum bæri að gefa út hlutlausa umsögn en hvergi væri þess getið í lögum að umsagnaraðilar gætu látið gildisdóm um starfsemina ráða för við afgreiðslu umsagna. Brynjar Níelsson lögmaður Goldfingers bendir í kærunni á að ekki hafi verið ætlun löggjafans að leggja í hendur einstakra umsagnaraðila að meta hvort nektardans sé „góður eða vondur“ eða hvar mannúðin eða almannahagsmunir liggi í málum sem þessum.

Lögmaðurinn bendir á að í umsögn lögreglustjóra sé ýjað alvarlega að því að stúlkur á Goldfingar séu þvingaðar til þess og að skipulögð glæpasamtök útvegi staðnum stúlkur. Hafi staðurinn óskað eftir rökstuðningi og gögnum til stuðnings þessu en verið neitað. Segir lögmaðurinn að það sé fáheyrt og sennilega einsdæmi að stjórnvöld fari eftir sögusögnum og slúðri við ákvarðanatöku um mikilvæg réttindi eins og hér reyni á. Það sé brot á Mannréttindasáttmála Evrópu að stjórnvald væni aðila um refsiverða háttsemi án þess að hann hafi verið ákærður og hvað þá dæmdur.

Í umsögn lögreglustjóra segir m.a. að reynsla undanfarinna ára af eftirliti með nektarstöðum sé miður góð. Þar er átt við afskipti lögreglu vegna opnunartíma, atvinnuréttinda starfsmanna og ákvæða um bann við einkasýningum á nektardansi í lokuðu rými.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert