„Einhverjir brestir í félags- og heilbrigðiskerfinu“

„Það þarf að skilgreina og skýra betur ábyrgð ríkis og sveitarfélaga í málefnum barna,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Hún segir að upplýsingar um dauðsföll mæðra í fíkniefnavanda frá ungum börnum sínum sýni að það séu „einhverjir brestir í okkar félags- og heilbrigðiskerfi“.

Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur upplýsti í vikunni að 12-13 mæður hefðu látist úr afleiðingum fíkniefnaneyslu og skilið eftir sig 20 ung börn. Tilkynningum um að ófæddum börnum sé hætta búin vegna fíkniefnaneyslu kvenna á meðgöngu hefur líka fjölgað verulega.

„Þessar fréttir gefa tilefni til að fara yfir þessi barnaverndarmál í heild sinni. Reyndar erum við að því núna því að í þinginu liggur fyrir barnaverndaráætlun sem m.a. snýr að barnaverndarnefndunum. Síðan er ég með í farvatninu að endurskoða barnaverndarlögin. Þessir skelfilegu atburðir, sem hafa verið að koma fram í dagsljósið, munu örugglega koma inn í það mál,“ sagði Jóhanna.

Meira fer í málefni barna á hinum Norðurlöndunum

Þetta er mjög alvarlegt og ríki og sveitarfélögin hljóta að skoða þetta saman. Þetta sýnir að það eru einhverjir brestir í okkar félags- og heilbrigðiskerfi sem þarf að taka á. Það má vera að þetta vinni ekki nægilega heildstætt saman. Ég sé í mínu starfi að það vantar mjög mikið upp á skilgreiningu á því hvar ábyrgð liggur í ýmsum málum, m.a. sem snerta börnin, þ.e. hvort hún á að liggja hjá ríki eða sveitarfélögum. Menn eru oft að togast á um þetta og fyrir það líða þeir sem þurfa á aðstoð að halda.“

Jóhanna sagði að fjármunir sem færu í þennan málaflokk hefðu aukist verulega í tíð núverandi ríkisstjórnar. „Hitt er annað mál að það sem ég hef skoðað þessi mál á undanförnum árum bendir til að við leggjum þegar á heildina er litið minna til málefna barna en hin Norðurlöndin og ég vona að á því verði breyting,“ sagði Jóhanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert