Lýsa stuðningi við Magnús Þór

Ályktun þar sem lýst er stuðningi við bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins á Akranesi og núverandi oddvita flokksins þar, Magnús Þór Hafsteinsson, var samþykkt á miðstjórnarfundi Frjálslynda flokksins sem lauk um kl. 22:00 í gærkvöldi.

Einnig var kynnt ályktun þingflokksins um málefni flóttamanna en fundinn sóttu miðstjórnarmenn flokksins víðsvegar af landinu.

Stuðningsyfirlýsingin við Magnús Þór Hafsteinsson varaformann Frjálslynda flokksins og oddvita bæjarmálafélags Frjálslyndra á Akranesi fylgir hér á eftir:

„Miðstjórn Frjálslynda flokksins lýsir yfir fullum stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson varaformann flokksins í störfum hans  sem sveitarstjórnarmaður á Akranesi. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur farið þess á leit við Akranesbæ að sveitarfélagið taki á móti allt að 60 flóttamönnum frá Írak á næstu tveim árum. Sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn hefur Magnús sinnt skyldum sínum með því að benda réttilega á slælegan undirbúning málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar.  Jafnframt hefur hann spurt eðlilegra spurninga sem hljóta að vakna þegar jafn stórt og viðamikið verkefni kemur til umræðu og kallað eftir svörum. Miðstjórn Frjálslynda flokksins harmar að viðbrögð Sjálfstæðisflokksins vegna þessa hafi orðið með þeim hætti að flokkurinn kaus að binda enda á meirihluta samstarf við Frjálslynda og óháða á Akranesi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka