Bandarísk flugmálayfirvöld hafa bannað flugmönnum og flugumferðarstjórum að nota nikótínlyfið Champix. Dæmi eru um að ökumenn sem notað hafa lyfið, sem samþykkt var í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum, hafi misst meðvitund og keyrt út af.
Aðrir notendur lyfsins hafa slasast illa vegna falls af völdum meðvitundarleysis eða svima. Auk beinna slysa hefur verið tilkynnt um sjóntruflanir, hjartsláttartruflanir, krampa, alvarleg húðvandamál og sykursýki vegna notkunar nikótínlyfsins sem kom á markað hér á landi í fyrra. Lyfjastofnun hefur borist ein alvarleg aukaverkun vegna lyfsins.
Á síðasta fjórðungi síðasta árs voru skráðar 988 alvarlegar aukaverkanir af völdum Champix hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu, að því er segir í skýrslu vísindamanna á vef The Institute for Safe Medication Practices.
„Fólk sem ekur bifreiðum, flýgur flugvélum eða notar önnur farartæki notar Champix. Það getur þess vegna haft mjög alvarlegar afleiðingar ef það missir meðvitund þótt ekki sé nema í nokkrar sekúndur. Flugmönnum í Bandaríkjunum hefur meira að segja verið ráðlagt að nota Champix vilji þeir hætta að reykja,“ sagði Curt Furberg, einn vísindamannanna, í viðtali skömmu áður en flugmönnum í Bandaríkjunum var bannað að nota lyfið nú í vikunni.
Vísindamennirnir eru meðvitaðir um að það sé ekki nóg að skoða bara skýrslur um aukaverkanir en benda á að þær séu alvarleg viðvörun. „Flestar þessara aukaverkana stemma við virkni lyfsins. Það hefur áhrif á heilann og margar þessara aukaverkana stafa frá heilanum,“ sagði Curt Furberg.
Talsmenn bandaríska lyfjaeftirlitsins segja skýrslu vísindamannanna sýna að nauðsyn sé á frekari rannsóknum á aukaverkunum lyfsins.
Evrópska lyfjastofnunin Emea hefur talið ástæðu til að fylgjast með notkun Champix, meðal annars vegna þess að notkun þess hefur verið tengd sjálfsmorðstilraunum.