Í ályktun, sem þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur sent frá sér um málefni flóttamanna, er stefna flokksins í málefnum flóttamanna og lýst yfir vilja til þess að bjóða flóttafólki búsetu og dvöl hér á landi.
„Við skorumst ekki undan ábyrgð í málum flóttafólks og viljum að Íslendingar taki virkan þátt í mannúðar- og hjálparstarfi á erlendum sem innlendum vettvangi. Hvetur þingflokkurinn Alþingi og ríkisstjórn til þess að auka fjármagn til málaflokksins á komandi árum. Íslendingar eru rík þjóð sem á að vinna vel að mannúðar- og hjálparstarfi," segir í ályktuninni.
Þingflokkurinn segir að erlendis blasi verkefnin við hvert sem litið er og skortur og neyð bjargarlauss fólks sé yfirþyrmandi.
„Íslendingar eiga að beita sér í auknum mæli fyrir bættum hag flóttafólks. Stórefla á hjálparstarf annars vegar sem veitt er á erlendum vettvangi og hins vegar til þess að veita flóttamönnum móttöku hérlendis án tillits til kynþáttar eða trúarbragða þeirra.
Þingflokkur Frjálslynda flokksins telur nauðsynlegt að jafnan sé vandað til verka þannig, að sú aðstoð, sem við veitum, nýtist sem best, sérstaklega þar sem þörfin er mest.Móttaka flóttafólks sem vandasamt og flókið verkefni sem krefst mikils og vandaðs undirbúnings og góðrar kynningar meðal íbúanna svo að sem víðtækust samstaða geti orðið um móttöku þess. Mikilvægt er til þess að tryggja góðan árangur, að sýna erlendum flóttamönnum að þeir séu velkomnir til landsins og til þáttöku í þjóðfélaginu svo þeir aðlagist því," segir flokkurinn.
Þá segir, að af þeirri gagnrýni, sem fram hafi komið, verði ekki dregin önnur ályktun en sú, að betur hefði mátt standa að málum varðandi væntanlega komu flóttafólks til Akraness. Hvetur þingflokkurinn stjórnvöld til þess að bætt verði úr nú þegar og að þau beiti sé fyrir góðri upplýsingagjöf um komu flóttamanna á þessu ári. Eðlilegt sé að íbúalýðræði sé vikjað á Akranesi sem annarsstaðar við lausn mála.