Vörubílstjórar munu efna til mótmæla á Austurvelli

Sturla Jónsson.
Sturla Jónsson. mbl.is/Kristinn

„Við ætlum að jarða loforð ríkisstjórnarinnar um að koma til móts við fjölskyldur landsins í efnahagsástandinu sem nú ríkir, og því höfum við boðað til útfarar á fimmtudaginn á Austurvelli.“

Þetta segir Sturla Jónsson, talsmaður vörubílstjóra, um fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir vörubílstjóra á Austurvelli þann 29. maí næstkomandi.

„Við ætlum að auglýsa mótmælin í fjölmiðlum og vonum að sem flestir láti sjá sig, en við viljum beina því til fólks að vera í sorgarklæðunum ætli það sér að mæta. Við ætlum að keyra með klerkinn og venjulega líkkistu á vélavagni framhjá þinghúsinu og halda útför.“

Sturla á ekki von á að mótmælin muni fara út um þúfur, líkt og gerðist á dögunum í Norðlingaholti og telur að íslenska þjóðin standi enn þétt við bakið á vörubílstjórum landsins í sínum aðgerðum.

„Þessi gjörningur verður gerður í fullu samráði við lögreglu, en þar á bæ sjá menn ekkert þessu til fyrirstöðu. Það hefur aragrúi af fólki komið að tali við mig á dögunum og lýst yfir stuðningi við okkar málstað. Þá hef ég m.a.s. verið hvattur til að huga að því að fara í framboð og ég myndi ekki hika við það ef ég fengi til þess stuðning og fjármagn. Það þarf að skipta út þessu fólki á þingi undireins, og koma inn fólki sem er annt um þjóðina sína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert