Flestir, sem tóku þátt í skoðanakönnun Fréttablaðsins, vilja að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði borgarstjóri þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur við því embætti í mars á næsta ári. Samfylkingin er með mest fylgi einstakra flokka í Reykjavík samkvæmt könnuninni.
40,2% aðspurðra nefndu Hönnu Birnu þegar spurt var hver úr röðum sjálfstæðismanna menn vildu að yrði borgarstjóri. 15,2% nefndu Gísla Martein Baldursson, 10,8% Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, 5,5% Júlíus Vífil Ingvarsson, 3,9% Kjartan Magnússon, 3% Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og 0,3% Jórunni Ósk Frímannsdóttur.
Þegar spurt var um stuðning við stjórnmálaflokka sögðust 43,4% þeirra, sem tóku afstöðu, myndu kjósa Samfylkingu ef kosið væri nú. 33,8% sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokk, 14,1% VG, 4,2% Framsóknarflokk og 4,2% Frjálslynda flokkinn. Miðað við þetta fengi Samfylking 7 borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkur 6, VG 2 en aðrir engan mann.
Þá sögðust 27,7% styðja núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista en 72,3% sögðust ekki styðja hann.