Akvegirnir tvöfaldaðir en hvar eru hjólreiðastígarnir?

Hjólreiðar eru heilsusamlegur, umhverfisvænn og hagkvæmur samgöngumáti (eins og segir á heimasíðu átaksins Hjólað í vinnuna) og bæði ríkisvaldið og sveitarstjórnir hafa hvatt til hjólreiða og almennrar hreyfingar. Og eftir því sem fleiri hjóla því minni verða umferðahnútarnir. Í ljósi alls þessa hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvers vegna hjólreiðastígar voru ekki lagðir um leið og Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut voru tvöfölduð í umfangsmestu vegagerð síðari ára á höfuðborgarsvæðinu.

Sjö milljarðar. Það er um það bil kostnaðurinn við að tvöfalda Vesturlandsveg um Mosfellsbæ og Reykjanesbraut þar sem hún liggur um þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Meðan umræddar framkvæmdir voru á skipulagsstigi reyndu Landssamtök hjólreiðamanna að koma þeirri hugmynd að hjá Vegagerðinni, samgönguráðuneytinu og sveitarfélögum að um leið og bílvegirnir væru tvöfaldaðir yrði gert ráð fyrir hjólastígum meðfram vegunum og þannig yrðu bæjarfélögin sem þessar stofnbrautir liggja um tengd saman.

Á þessar ábendingar var hlustað en ekkert gert, a.m.k. ekki ennþá. Þurfi hjólreiðamenn að fara þessar leiðir verða þeir þess vegna annaðhvort að fara miklar krókaleiðir eða hjóla úti í vegkanti og bíta á jaxlinn þegar bílarnir þeysast fram úr á 80-100 km hraða eða hraðar.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar hjá Jónasi Snæbjörnssyni, svæðisstjóra á Suðvesturlandi, að þar á bæ hefðu menn litið svo á að það væri hlutverk sveitarfélaga að skipuleggja og greiða fyrir hjólreiðastíga. Þar að auki hefði Vegagerðin ekki haft heimild til að leggja fé í hjólreiðastíga fyrr en eftir að vegalögum var breytt árið 2007. Vegagerðin hafði á hinn bóginn heimild til að borga fyrir reiðvegi og hefur haft þá heimild lengi.

Hjá sveitarfélögunum, a.m.k. sumum, var hins vegar litið svo á að ríkinu bæri að koma að uppbyggingu hjólreiðastíga meðfram stofnbrautum.

Í kjölfar ofangreindrar breytingar á vegalögunum var settur á laggirnar vinnuhópur sem í sitja fulltrúar samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hefur að hlutverk að fjalla um hjólreiðastíga við stofnbrautir.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, vonast til þess að starf vinnuhópsins leiði til þess að óvissu í þessum efnum verði eytt og ráðist verði í stígagerðina sem allra fyrst. Bæjarstjórnin hafi mikinn áhuga á að leggja þessa stíga enda séu þeir beinlínis forsenda þess að reiðhjól geti verið raunhæfur samgöngumáti. „Þetta er eitthvað sem þarf nauðsynlega að koma á koppinn,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert