Hæstiréttur hefur ógilt úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að Pólverji, sem varð uppvís að þjófnaði í Póllandi, verði framseldur þangað. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður staðfest úrskurðinn.
Maðurinn hefur verið ákærður í Póllandi fyrir að brjótast inn í hús í Bialystok og stela þar tölvu og tölvubúnaði að verðmæti um 3000 zloty, jafnvirði rúmlega 100 þúsund íslenskra króna. Þetta gerðist árið 2005 þegar maðurinn var 18 ára en hann er nú 21 árs og hefur stundað vinnu hér á landi í tvö ár. Þá búa margir ættingjar hans hér á landi.
Dómsmálaráðuneytið vísaði m.a. til þess í úrskurði sínum, að sú háttsemi , sem manninum sé gefin að sök gæti varðað fangelsi allt að 6 árum, og að brotin séu ófyrnd.
Meirihluti Hæstaréttar segir, að samkvæmt gögnum um meðferð málsins verði ekki með vissu ráðið að varnaraðili hafi skilið leiðbeiningar lögreglu um rétt hans til að hafa samband við lögmann. Í lögregluskýrslu sé hvorki skráð að hann hafði þegið þetta boð eða hafnað.
Einn dómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, er sammála meirihluta dómsins um að ógilda beri úrskurðinn en á þeim forsendum, að brotið, sem tilgreint er í framsalsbeiðni, sé minni háttar þjófnaðarbrot sem hér á landi yrði talið varða að mun vægari refsingu en eins árs fangelsi. Það geti því ekki orðið grundvöllur framsals.