Harkalega deilt um verð á sumarbústaðalóðum

Eigendur sumarbústaðalóða í Eyrarskógi í Svínadal og eigendur sumarhúsanna á lóðunum hafa deilt harkalega um uppsett verð fyrir lóðirnar og eru deilurnar komnar á það stig að aðilar talast ekki lengur við. Lóðirnar eru um 130 og eru leigðar til 25 ára en í flestum tilfellum eiga menn mörg ár eftir af leigutímanum.

Sverrir D. Hauksson, formaður Hagsmunafélags Sumarhúsaeigenda í Eyrarskógi og Hrísabrekku, skammt frá Vatnaskógi, segir að fyrir meira en ári hafi félagar séð hvað væri að gerast í sambærilegum málum í Skorradal og haft samband við hjónin á Eyri í þeim tilgangi að semja um kaup á sumarbústaðalandinu. Þau hefðu þá verið byrjuð að vinna í því að fá nýtt deiliskipulag á landið. Í kjölfarið hefðu þau sett málið í hendur fasteignasala og beint bústaðaeigendum til ákveðins forsvarsmanns. Hverjum og einum hefði verið boðið að gera tilboð í landið og verðið verið frá um 7 til um 10 milljóna á hektara. Lóðirnar væru yfirleitt um 0,4 til 0,7 hektarar og meðalverðið því um 4 milljónir króna fyrir sumarbústaðalandið. Mjög fáir hefðu sætt sig við þetta og félagið hefði bent á að verðið væri allt of hátt miðað við markaðsverð. Auk þess væri mikið mýrlendi þarna og það boðið á háu verði. Félagið hefði boðið 3 til 3,5 milljónir á hektara en því verið hafnað.

Ef miðað er við fjögurra milljóna króna meðalverð yrði heildargreiðsla fyrir lóðirnar 130 um 520 milljónir

Sveinn Guðmundsson, lögfræðingur Landssambands sumarhúsaeigenda, segir að sumir landeigendur hafi spennt bogann ansi hátt. Í því sambandi nefnir hann að í Dagverðarnesi hafi hektarinn verið seldur á allt að 40 milljónum eða lóð á fjórðungi úr hektara fyrir 10 milljónir. Það væri ekki í nokkru samræmi við verðmæti og verðþróun á landsvísu en þetta smitaði út frá sér og uppsett verð í Eyrarskógi væri dæmi um það. Eyrarskógur hefði sérstöðu að því leyti að þar væri bóndi í verðstríði við sumarhúsaeigendur en yfirleitt væru það fjárfestar, sem keyptu sumarbústaðalönd, þar sem leiga væri gjarnan að renna út með það í huga að geta þvingað fólk til þess að kaupa á háu verði. Hafa bæri í huga að um tvenns konar eignarrétt væri að ræða, eignarrétt landeiganda og eignarrétt fólks á fasteignum. Ekki væri hægt að horfa framhjá því sem fólk hefði gert á leigulandi og í raun ætti að virða það frekar til lækkunar á landinu en hækkunar. Margir bændur hefðu enda boðið fólki að kaupa sumarbústaðalandið á sanngjörnu verði. Við Þingvallavatn hefðu lóðir farið á 2 milljónir við vatnið. Í Grafningnum í landi Króks hefðu lóðirnar farið á eina milljón. Við Gufuá í Borgarfirði hefði hver lóð farið á hálfa til eina milljón.

Fyrir Alþingi liggur tillaga um ný lög sem taka til þessara mála. Sveinn bendir á að þau eigi að tryggja fólki með leigusamning ákveðna réttarstöðu eins og til dæmis bætur fyrir fasteignir á leigulóð. Í Dagverðarnesi hafi leigan til dæmis hækkað fjórfalt í vor, en þar, eins og í Eyrarskógi, eigi margir mörg ár eftir af leigusamningi sínum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert