Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður stóð ekki að stuðningsyfirlýsingu miðstjórnar Frjálslynda flokksins við Magnús Þór Hafsteinsson, varabæjarfulltrúa á Akranesi. Magnús segir að með þessari afstöðu komi Kristinn í bakið á samherjum sínum.
Kristinn sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki styðja Magnús Þór. „Ég styð ekki málflutning hans og tel ekki ástæðu til að styðja sérstaklega framgöngu hans á Akranesi, þar sem þar hefur tekist svo til að hann hefur misst meirihlutaaðstöðuna úr höndum sér,“ sagði Kristinn.
Magnús Þór Hafsteinsson sagði að með þessu væri Kristinn að koma í bakið á honum, sínum eigin þingflokki og formanni flokksins. „Formaður flokksins var allan tímann upplýstur um gang mála á Akranesi, um þá greinargerð sem ég skrifaði. Ég sendi hana til formannsins um leið og ég hafði skrifað hana. Formaðurinn las hana yfir og lagði blessun sína yfir það sem þar stóð, þannig að ég lít nú eiginlega svo á að ef Kristinn H. Gunnarsson er að veitast að mér í þessu máli er hann jafnframt að veitast að sínum eigin þingflokki, hann er að veitast að miðstjórn flokksins og hann er að veitast að formanni flokksins,“ sagði Magnús.
Kristinn segir á heimasíðu sinni, að ekki hægt að túlka ályktun miðstjórnarinnar með öðrum hætti en sem stuðning við stefnumótun. Að öðrum kosti hefði miðstjórnin látið það koma fram í ályktun sinni, ef hún gerði ágreining við þingflokkinn um stefnuna í málefnum flóttafólks.
„Ekki er annað vitað en að góð samstaða sé innan Frjálslynda flokksins um
stefnumörkun þingflokksins og að með samþykktinni hafi tekist að skýra stefnu
flokksins. Stefnan er frjálslynd eins og vera ber hjá frjálslyndum flokki og
felur í sér umburðarlyndi og mannúð.
Hinu er ekki að leyna að
ágreiningur er um málflutninginn á Akranesi undanfarnar vikur og verkefnið er að
jafna hann. Það ætti að vera viðráðanlegt þegar fyrir liggur með skýrum hætti
hver stefna flokksins er í málefnum flóttamanna. Áherslur í einstökum
sveitarfélögum þurfa eðlilega að vera innan hinnar almennu stefnu flokksins," segir Kristinn.