Rætt um nýtingu orkuauðlinda á Alþingi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Frikki

Verið er að ræða á Alþingi um frumvarp um breytingar á ýmsum auðlinda- og orkusviði en iðnaðarnefnd þingsins lauk umfjöllun um frumvarpið í síðustu viku. Þingmenn VG segja, að með
frumvarpinu sé stigið stórt skref í þá átt að færa nýtingu orkuauðlindanna úr félagslegri forsjá sveitarfélaga og ríkis og fyrirtækja þeirra yfir til einkaaðila á markaði.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja núverandi eignarhald ríkis og sveitarfélaga á vatns- og jarðhitaréttindum yfir tilteknum viðmiðum. Miðað er við að eignarhaldið sé bundið í lög þannig að opinberum aðilum er óheimilt að framselja varanlega áðurnefndar auðlindir til annarra en ríkis, sveitarfélaga eða félaga sem alfarið eru í eigu þessara aðila og sérstaklega stofnuð til að fara með þessi réttindi. Verði frumvarp þetta að lögum munu opinberir aðilar geta veitt öðrum tímabundinn afnotarétt á auðlindum í þeirra eigu til 65 ára eða skemur.

Fram kemur í áliti meirihluta iðnaðarnefndar, að nefndinni hafi borist  margar ábendingar um að kominn væri tími til að endurskoða lagaramma utan um starfsemi sérleyfishafa með það að leiðarljósi að tryggja hagkvæman rekstur og að fyrirtækin sjái sér hag í að byggja upp raforkukerfið. Fulltrúar iðnaðarráðuneytis hafi upplýst nefndina um að verið væri að skipa nefnd til að endurskoða raforkulögin og að þessir þættir mundu þá koma til skoðunar.

Í nefndaráliti VG segir, að með frumvarpinu séu orkuauðlindir, sem þegar eru í almannaeign, vissulega varðar en það sé engu síður ávísun á einkavæðingu 49–100% af öllum öðrum eignum og rekstrarþáttum stærstu rafveitna og hitaveitna á landinu. Á sama tíma treysti iðnaðarráðherra sér ekki til að hrófla við eignarhaldi einkaaðila á orkuauðlindunum.

Frumvarp um auðlinda- og orkusvið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert