Samningar gerðir við ríkið

Sjúkraliðar skoða samninginn áður en skrifað var undir um miðnættið.
Sjúkraliðar skoða samninginn áður en skrifað var undir um miðnættið. mbl.is/Jón Svavarsson

Gengið var undir miðnættið frá samningi aðildarfélaga BSRB, sem áttu lausa samninga við ríkið 1. maí sl., við samninganefnd ríkisins.  Gert var
ráð fyrir að Starfsgreinasambandið skrifaði einnig undir kjarasamning við ríkið innan skamms.  

„Ég er mjög ánægður að samkomulag skuli vera í höfn,“ sagði Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, í kvöld í samtali við Morgunblaðið. „Ég tel hagsmunum félaga í BSRB vel borgið með því að gera skammtímasamning um krónutöluhækkun á laun við þessar aðstæður. Þó að samningurinn sé til skamms tíma eyðir þetta óvissu."

Samningur BSRB gildir frá 1. maí sl. til loka mars á næsta ári. Samið var til skamms tíma eða til loka mars á næsta ári. Samið var um 20.300 króna hækkun allra launataxta og einnig var samið um hækkun greiðslu ríkisins í styrkarsjóði BSRB um 0,2 prósentur, úr 0,55% í 0,75% um næstu áramót. Þá er í samningnum gengið frá ýmsum öðrum réttindamálum. Meðal annarra atriða sem samið var um er að desemberuppbótin hækkar úr 41.800 í 44.100 krónur.

Ögmundur sagði, að BSRB hefði lagt áherslu á að umönnunargeirinn yrði efldur með sértækum aðgerðum. Það væru vonbrigði að það skyldi ekki ná fram að ganga í þessum samningum. 

Samningur BSRB er gerður fyrir hönd Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, Félags starfsmanna stjórnarráðsins, Kjalar-stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, Samflots bæjarstarfsmannafélaga, SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands, Starfsmannafélags Garðabæjar,  Starfsmannafélags Kópavogs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Suðurnesja. 

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, og Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, …
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, og Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, skrifa undir samninginn. mbl.is/Jón
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert