Starfsgreinasambandið og ríkið sömdu

Fulltrúar Starfsgreinasambandsins og samninganefndar ríkisins skrifuðu undir kjarasamning í nótt en samningurinn er svipaður og samningur, sem fulltrúar  BSRB og ríkisins skrifuðu undir laust fyrir miðnættið í gær. 

Á heimasíðu SFT segir Signý Jóhannesdóttir, formaður sviðs starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, að hún sé  ánægð með niðurstöðuna miðað við að ekki skuli vera samið til lengri tíma. Vissulega hefði verið ánægjulegt ef að tekist hefði að ná fram sérstakri hækkun til umönnunarstétta og lagfæringum á vaktavinnuumhverfinu. Aðilar séu ásáttir um að ræða vaktavinnu og vaktaumhverfi á samningstímanum, sem vonandi muni leiða til úrbóta síðar.

Samningurinn er til 11 mánaða eða til loka mars 2009. Launataxtar hækka um 20.300 krónur frá og með 1. maí en frá sama tíma tekur gildi ný launatafla. Persónuuppbót á árinu 2008 verður 44.100 krónur og orlofsuppbót 24.300 krónur. Réttur foreldra til fjarveru vegna veikinda barna fer úr 10 dögum í 12. Þá hækkar framlag ríkisins í styrktar- og sjúkrasjóð aðildarfélaga SGS í 0,75% af heildarlaunum starfsmanns frá 1. janúar 2009.

Einnig var samið um sérstaka 17 þúsund króna jöfnunargreiðslu  fyrir ræstitækna í tímamældri ákvæðisvinnu sem greidd verði út 1. desember nk. Tryggt var sambærilegt framlag til endurhæfingarmála 0,13% endurhæfingargjald. 

Félagsmönnum aðildarfélaga SGS verður kynntur samningurinn á næstu dögum og stefnt er að því að atkvæðagreiðslu um samninginn verði lokið 20. júní nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert