Tíu stærstu útgerðirnar með 52,5% kvótans

Tíu stærstu útgerðarfyrirtæki landsins eru nú með 52,47% heildarkvótans, hálfu prósenti meira en fyrir ári. HB Grandi hf. er sem fyrr með mestan kvóta íslenskra útgerðarfyrirtækja, tæplega 12% af heildinni sem er það hámark sem útgerð má hafa.

Fiskistofa hefur eftirlit með stöðu stærstu handhafa aflaheimilda og eignatengslum þeirra til að framfylgja ákvæðum um hámarksaflahlutdeild einstakra aðila í lögum um stjórn fiskveiða. Stofnunin hefur nú birt upplýsingar um kvótastöðu 100 stærstu útgerðanna, miðað við 21. maí.

Í töflu stofnunarinnar kemur fram hlutdeild útgerða í þeim tegundum sem lúta ákvæðum um hámarkseign, einnig aflaheimildir viðkomandi útgerða í þorskígildum reiknað. Sleppt er stofnum sem alfarið veiðast utan íslenskrar lögsögu.

Útgerð er heimilt að eiga allt að 12% heildaraflamarks, samkvæmt þessum útreikningum. HB Grandi er sem fyrr með mestu aflaheimildirnar, nærri 45 þúsund tonn sem svarar til 11,91% af heildaraflamarki íslenskra skipa. Er það heldur hærra hlutfall en fyrir ári. Fyrirtækið er því rétt undir því hámarki sem sett er í lögum.

Þorskígildin eru mun færri en fyrir ári vegna niðurskurðar aflaheimilda en hlutföllin hafa ekki breyst mikið. Tíu stærstu útgerðarfélögin eru nú með 52,47% heildarkvótans. Er það heldur hærra hlutfall en fyrir ári þegar það var slétt 52%. Hlutur tíu stærstu útgerðanna á hverjum tíma hefur hækkað með árunum. Var til dæmis 47,7% haustið 2005.

Á listann yfir tíu stærstu útgerðirnar er komin Skinney-Þinganes, í níunda sæti, hefur bætt hlutdeild sína, en Síldarvinnslan í Neskaupstað, sem var í fjórða sæti síðast, dettur niður í það ellefta. Ísfélag Vestmannaeyja hefur bætt við sig kvóta og hækkað á listanum um nokkur sæti og FISK-Seafood hefur einnig bætt við sig.

Samherji er með 7,1% af þorskkvótanum og HB Grandi er með 6,6% af ýsukvótanum en hámarkið er 12% í báðum þessum tegundum.

Hámarkið í nokkrum öðrum tegundum er 20%. Þar er HB Grandi stærstur í ufsanum með 17,56%, Brim er kvótahæst í grálúðunni með 19,99%, HB Grandi er með 18,68% í loðnu, Skinney-Þinganes með 18,97% af síldarkvótanum og Hraðfrystihúsið Gunnvör er með 15,99% úthafsrækjukvótans. HB Grandi er síðan með 31,95% karfakvótans en hámarkið þar er 35%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert