Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að sjávarútvegsráðherra hefði síðustu vikur látið vinna mjög vandaða lögfræðivinnu vegna svars til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Sagði Geir að þrír valinkunnir lögfræðingar vinni að svarinu og nú styttist í að það verði tilbúið og sent til nefndarinnar.
Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurðist fyrir um málið í dag og gagnrýndi, að svarið yrði ekki tilbúið áður en þing færi heim í vor. Sagði hann að Karl V. Matthíasson, varaformaður sjávarútvegsnefndar þingsins, hefði um helgina kynnt þá stefnu Samfylkingarinnar, að fyrningarleiðin skuli tekin upp.
Geir tók sérstaklega fram, að Karl V. Matthíasson hefði farið til Síberíu í dag. Guðni sagði þá, að Haarde meinleysið væri orðið hart, að senda einn vænsta Samfylkingarmanninn til Síberíu.