32 heimili voru hleruð á árunum 1949-1968

Kjartan Ólafsson.
Kjartan Ólafsson. mbl.is/Eyþór

Símar á samtals 32 heimilum voru hleraðir vegna óska frá stjórnvöldum í samtals sex hlerunarlotum á árabilinu 1949–1968. Þar á meðal voru heimili 12 alþingismanna og áttu 9 þeirra sæti á Alþingi þegar hleranirnar fóru fram, en margir höfðu aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi og jafnvel voru hleraðir símar hjá fólki sem hafði verið dyggir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kemur fram í grein Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns, í miðopnu Morgunblaðsins í dag. Þar er einnig birt skrá yfir hin 32 heimili sem urðu fyrir hlerunum. Meðal þeirra sem sættu hlerunum á umræddu tímabili, að sögn Kjartans, 12 alþingismenn og áttu 9 þeirra sæti á þingi þegar símar þeirra voru hleraðir.  

Fram kemur í greininni að dómarar heimiluðu hleranirnar, án fyrirstöðu, að beiðni dómsmálaráðherra, sem í tilvikunum sex tilheyrðu Sjálfstæðisflokknum, og í fjórum tilvikum af sex var ekki vísað í eina einustu lagagrein til stuðnings hlerunarbeiðni.

„Með hinum víðtæku pólitísku símahlerunum var ráðist að heiðvirðu og vammlausu fólki með aðferðum sem almennt þykir aðeins við hæfi að beita gegn stórhættulegum glæpamönnum svo sem eiturlyfjasölum, meintum morðingjum eða landráðamönnum. Þessar pólitísku símahleranir á árunum 1949-1968 eru svartur blettur í sögu íslenska lýðveldisins. Þær eru víti til varnaðar fyrir alla þá sem fara með æðstu völd, nú og á komandi árum.

Vel færi á því að núverandi dómsmálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, bæði allt það fólk sem brotið var á með þessum hætti afsökunar á ósómanum – þá sem enn lifa og hina sem látnir eru. Niðjar þeirra eiga líka rétt á slíkri afsökunarbeiðni," segir Kjartan í greininni.

Listinn yfir heimilin 32, sem Kjartan segir að hafi verið hleruð á umræddu tímabili, er eftirfarandi:

  1. Arnar Jónsson leikari, fæddur 1943, og Þórhildur Þorleifsdóttir, síðar leikari, leikstjóri og leikhússtjóri, fædd 1945. Hlerað 1968. Bjuggu þá á Kleppsvegi 132 í Reykjavík.
  2. Áki H. J. Jakobsson, alþingismaður og áður ráðherra, fæddur 1911, og Helga Guðmundsdóttir húsfreyja, fædd 1910. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá í Drápuhlíð 36 í Reykjavík.
  3. Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Þjóðviljans og síðar framkvæmdastjóri vinnuheimilis SÍBS á Reykjalundi, fæddur 1907, og Hlín Ingólfsdóttir húsfreyja, fædd 1909. Hlerað 1949. Bjuggu þá í Miðtúni 16 í Reykjavík.
  4. Björn Kristmundsson skrifstofumaður, fæddur 1909. Hlerað 1949. Bjó þá á Bollagötu 10 í Reykjavík.
  5. Brynjólfur Bjarnason, alþingismaður og áður ráðherra, fæddur 1898, og Hallfríður Jónasdóttir húsfreyja, fædd 1903. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Brekkustíg 14 B í Reykjavík.
  6. Eðvarð Sigurðsson, alþingismaður og lengi formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fæddur 1910, og Ingibjörg S. Jónsdóttir húsfreyja (móðir Eðvarðs), fædd 1885. Hlerað 1961. Bjuggu þá í Litlu-Brekku við Þormóðsstaðaveg í Reykjavík.
  7. Eggert Þorbjarnarson framkvæmdastjóri, fæddur 1911, og Guðrún Rafnsdóttir húsfreyja, fædd 1910. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Langholtsvegi 33 í Reykjavík.
  8. Einar Angantýsson innheimtumaður, fæddur 1895, og Guðríður Einarsdóttir gjaldkeri (faðir og dóttir hans), fædd 1926. Hlerað 1949. Bjuggu þá á Hofsvallagötu 23 í Reykjavík.
  9. Einar Olgeirsson alþingismaður, fæddur 1902, og Sigríður Þorvarðardóttir húsfreyja, fædd 1903. Hlerað 1949, 1951, 1961 og 1963. Bjuggu þá á Hrefnugötu 2 í Reykjavík.
  10. Finnbogi Rútur Valdimarsson, alþingismaður og síðar bankastjóri, fæddur 1906, og Hulda Jakobsdóttir, húsfreyja og síðar bæjarstjóri, fædd 1911. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Marbakka í Kópavogi.
  11. Guðlaugur Jónsson verkamaður, fæddur 1900, og Margrét Ólafsdóttir húsfreyja, fædd 1895. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Hverfisgötu 104B í Reykjavík.
  12. Guðmundur Hjartarson, erindreki og síðar bankastjóri Seðlabankans, fæddur 1914, og Þórdís Þorbjörnsdóttir húsfreyja, fædd 1916. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Hraunteigi 23 í Reykjavík.
  13. Guðmundur Vigfússon bæjarfulltrúi, fæddur 1915, og Marta Kristmundsdóttir húsfreyja, fædd 1917. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Bollagötu 10 í Reykjavík.
  14. Hannibal Valdimarsson, alþingismaður og forseti Alþýðusambands Íslands, áður ráðherra og líka síðar, fæddur 1903, og Sólveig Ólafsdóttir húsfreyja, fædd 1904. Hlerað 1961. Bjuggu þá á Laugarnesvegi 100 í Reykjavík.
  15. Haraldur S. Norðdahl tollvörður, fæddur 1897, og Valgerður Jónsdóttir Norðdahl húsfreyja, fædd 1895. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Bergstaðastræti 66 í Reykjavík.
  16. Hjalti Árnason verkamaður, fæddur 1903, og Sigríður Friðriksdóttir húsfreyja, fædd 1914. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Snorrabraut 32 í Reykjavík.
  17. Jens Hallgrímsson verkamaður, fæddur 1896, og Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, fædd 1895. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Baugsvegi 35 í Reykjavík.
  18. Jón Bjarnason, blaðamaður og fréttastjóri, fæddur 1909, og Jóhanna Bjarnadóttir húsfreyja, fædd 1891. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Skólavörðustíg 19 í Reykjavík.
  19. Kristinn E. Andrésson magister, forstjóri bókmenntafélagsins Máls og menningar, áður alþingismaður, fæddur 1901, og Þóra Vigfúsdóttir húsfreyja, fædd 1897. Hlerað 1951 og 1961. Bjuggu 1951 í Þingholtsstræti 27 í Reykjavík en 1961 á Kleppsvegi 34 í Reykjavík.
  20. Lúðvík Jósepsson alþingismaður, áður og síðar ráðherra, fæddur 1914, og Fjóla Steinsdóttir húsfreyja, fædd 1916. Hlerað 1961 og 1968. Bjuggu þá á Miklubraut 80 í Reykjavík.
  21. Magnús Kjartansson, ritstjóri og alþingismaður, síðar ráðherra, fæddur 1919, og Kristrún Ágústsdóttir húsfreyja, fædd 1920. Hlerað 1949, 1951, 1961, 1963 og 1968. Bjuggu þá á Háteigsvegi 42 í Reykjavík. 
  22. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og síðar veðurstofustjóri, fæddur 1923, og Hulda Baldursdóttir húsfreyja, fædd 1923. Hlerað 1968. Bjuggu þá í Skaftahlíð 8 í Reykjavík.
  23. Ragnar Arnalds kennari, áður og síðar alþingismaður og ráðherra um skeið, fæddur 1938, og Hallveig Thorlacius kennari, síðar brúðuleikari, fædd 1939. Hlerað 1968. Bjuggu þá í Bólstaðarhlíð 14 í Reykjavík.
  24. Sigfús A. Sigurhjartarson, bæjarfulltrúi og áður alþingismaður, fæddur 1902, og Sigríður Stefánsdóttir húsfreyja, fædd 1900. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Laugateigi 24 í Reykjavík.
  25. Sigurður Guðmundsson ritstjóri, fæddur 1912, og Ásdís Þórhallsdóttir húsfreyja, fædd 1922. Hlerað 1949 og 1968. Bjuggu þá á Fálkagötu 1 í Reykjavík.
  26. Sigurður Guðnason, alþingismaður og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fæddur 1888, og Kristín Guðmundsdóttir húsfreyja, fædd 1891. Hlerað 1949 og 1951. Bjuggu þá á Hringbraut 88 í Reykjavík.
  27. Snorri Jónsson járnsmiður, lengi formaður Félags járniðnaðarmanna, síðar framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og um skeið forseti þess, fæddur 1913, og Agnes Magnúsdóttir húsfreyja, fædd 1921. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Kaplaskjólsvegi 54 í Reykjavík.
  28. Stefán Bjarnason verkamaður, fæddur 1910, og Rósa S. Kristjánsdóttir húsfreyja, fædd 1912. Hlerað 1968. Bjuggu þá á Sunnuvegi 19 í Reykjavík.
  29. Stefán Jakobsson múrarameistari, fæddur 1895, og Guðrún Guðjónsdóttir húsfreyja, fædd 1903. Hlerað 1951. Bjuggu þá á Háteigsvegi 30 í Reykjavík.
  30. Stefán Ögmundsson, prentari og prentsmiðjustjóri, fæddur 1909, og Elín Guðmundsdóttir húsfreyja, fædd 1912. Hlerað 1949. Bjuggu þá í Þingholtsstræti 27 í Reykjavík.
  31. Úlfur Hjörvar, rithöfundur og þýðandi, fæddur 1935, og Helga Helgadóttir Hjörvar leikari, síðar forstjóri Norræna hússins í Þórshöfn í Færeyjum og nú forstjóri Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, fædd 1943. Hlerað 1968. Bjuggu þá á Bergþórugötu 1 í Reykjavík.
  32. Þráinn Haraldsson vélvirki, fæddur 1928, og Unnur Kristjánsdóttir talsímakona, fædd 1931. Hlerað 1968. Bjuggu þá í Stóragerði 10 í Reykjavík.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka