Bjargað af hálendinu

Frá Hveravöllum á Kili.
Frá Hveravöllum á Kili. mbl.is/ÞÖK

Eldri hjónum var komið til hjálpar á hálendinu í kvöld. Hjónin sem eru danskir ferðamenn höfðu beðið um aðstoð lögreglunnar eftir að þau festu jeppabifreið sína á Eyvindarstaðaheiði í dag.

 Þau voru á leið frá Kjalvegi yfir í Mælifellsdal í Skagafirði en festust í aurbleytu. Þau gátu gert vart við sig í gegnum farsíma og fóru menn frá  Björgunarfélaginu Blöndu frá Blönduósi á einum jeppa og aðstoðuðu hjónin við að losa jeppann og fylgdu þeim niður á þjóðveginn.

 „Þau héldu síðan í átt til Sauðárkróks og ætla trúlegast ekki upp á hálendið í bráð," sagði Hilmar Frímannsson meðlimur í björgunarsveitinni í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

 Hilmar telur að merkja þurfi betur hvaða vegir og vegaslóðar eru lokaðir á hálendinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert