„Svæðið hefur verið útisamkomustaður Mývetninga í áratugi og við viljum gjarnan halda því þannig,“ segir Ásgeir Böðvarsson, formaður Höfðafélagsins, en félagið var stofnað haustið 2006 með það að markmiði að kaupa hluta af jörðinni Höfða við Mývatn.
Um er að ræða íbúðarhús og um tvo hektara lands sem hjónin Héðinn Valdimarsson og Guðrún Pálsdóttir áttu, en þau eignuðust allan Höfða árið 1930. Árið 1970 gaf Guðrún Skútustaðahreppi mestan hluta Höfða, en hélt eftir hluta landsins. Sá hluti verður boðinn upp 12. júní, en uppboðið er haldið til slita á sameign afkomenda hjónanna Héðins og Guðrúnar.
Ásgeir segir að önnur helsta ástæða þess að Höfðafélagið var stofnað hafi verið sú að fara að vilja fyrri eigenda hússins. Hann bendir í þessu sambandi á að þegar Guðrún gaf Skútustaðahreppi stóra hluta Höfða hafi hún skrifað í gjafabréfið að hún vildi halda ákveðnum hluta eftir fyrir sig og ættmenn sína, en að aldrei mætti leigja eða selja hlutann öðrum en Skútustaðahreppi.
„Tilgangurinn hjá okkur er að eignin haldist innan sveitarfélagsins og að þar fari fram starfsemi sem nýtist samfélaginu,“ segir Ásgeir. Hugmyndin er sú að eignist félagið hluta Höfða, verði hlutinn síðar eign Skútustaðahrepps.
Félagar í Höfðafélaginu eru á þriðja hundrað talsins, um helmingur Mývetningar en aðrir koma víða að. Safnað hefur verið fé meðal félaga til að reyna kaup á Höfða. Söfnunin hefur gengið ágætlega „en það vantar nokkuð upp á enn. Við höfum alltaf reiknað með því að þurfa að safna tugum milljóna til að geta keypt jörðina,“ segir Ásgeir. Í ljós komi hvernig gengið hafi á aðalfundi félagsins 8. júní nk., en hann verður á Kálfaströnd í Mývatnssveit.