Mun færri hrefnur voru á hefðbundnum svæðum á íslenska landgrunninu en áður þegar umfangsmikil talning fór fram í fyrra. Í skýrslu, sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa sent frá sér um talningarnar, segir að þær hafi aðeins leitt í ljós um 24% af þeim fjölda, sem talningar árið 2001 gáfu til kynna að væri á landgrunninu.
Flugtalningar á hrefnu árið 2001 bentu til þess að 43.600 væru á landgrunnssvæðinu en talningarnar í fyrra benda til þess að um 10-15 þúsund hrefnur hafi verið á svæðinu eftir því hvaða forsendur liggja að baki útreikningunum.
Gísli Víkingsson, einn skýrsluhöfunda, segir að fjallað hafi verið um matið í vísindanefnd NAMMCO og hafi líklegasta skýringin á þessari fækkun hrefnunnar verið talin sú, að hún hafi leitað annað eftir æti og því ekki náðst utan um hana í þessum talningum. Mikil breyting hafi orðið á fæðuframboði, einkum sandsíli og loðnu. Þannig vanti nánast tvo heila árganga sílis (2005 og 2006), en fækkun hrefnu sé einmitt mest á þeim svæðum þar sem síli hefur verið uppistaðan í fæðu hennar, eða á Faxaflóða og við Suðurland.
Gísli segir, að þessar breytingar á útbreiðslu hrefnu þurfi í raun ekki að koma svo mjög á óvart því þær séu í takt við ýmsar aðrar vísbendingar um breytingar í sjónum við landið á síðustu árum, s.s. lélegan varpárangur sjófugla og breytingar á útbreiðslu ýmissa fisktegunda. Engar vísbendingar séu um að hrefnuveiðar undanfarinna ára hafi haft áhrif á hrefnustofninn.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að miðað við þetta nýja mat á fjölda hrefna við Íslandsstrendur séu tölur um hugsanlegt afrán hrefna við Ísland gjörsamlega úreltar. Fullyrðingar LÍÚ eða einstakra þingmanna um nauðsyn þess að drepa þessi dýr í þeim tilgangi að halda eins konar jafnvægi í lífríki sjávar hér við land reynist nú innantóm orð í ljósi þessa nýja mats á fjölda dýra.
Hafrannsóknastofnun hefur undanfarin ár lagt til að veiðum á hrefnu verði haldið innan við 400 dýr.
Skýrsla íslensku vísindamannanna verður væntanlega til umræðu á fundi vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem hefst í Chile á sunnudag en nefndin mun bæði fjalla um stofnmat á hrefnu og langreyði. Ársfundur ráðsins verður síðan í Chile 26. júní.