Í undirbúningi er stofnun jarðfræðiseturs á Breiðdalsvík í nafni hins þekkta breskra jarðfræðings George Walker sem lagði grunninn að kortlagningu jarðlaga á Austurlandi fyrir um 50 árum. Setrið verður opnað þann 23. ágúst næstkomandi.
Af því tilefni efndi sendiherra Íslands í London til sérstaks hádegisverðarfundar mánudaginn 19. maí þar sem fræðasetrið var kynnt, drög voru lögð að aðkomu breskra aðila, meðal annars nokkurra háskóla, að þessari stofnun og skipst var á skoðunum um útfærslur á hlutverki setursins, að því er fram kemur í Stiklum, vefriti menntamálaráðuneytisins.
Forvígismaður verkefnisins er Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur. Meðal annarra gesta voru Lord Ron Oxburgh, einn þekktasti jarðvísindamaður Bretlands, Alison Walker, dóttir George Walkers, forsvarsmenn fræðasetursins, sveitastjóri Breiðdalshrepps auk breskra og íslenskra prófessora í jarðfræði.
Til stendur að setrið taki á móti innlendum sem erlendum nemendum á framhalds- og háskólastigi og veiti aðstöðu til rannsóknarstarfa sem byggja á þeim grunni sem George Walker lagði.