Maður á göngu í Öskjuhlíð rakst nýverið á gömul skot við göngustíg. Hann tilkynnti fundinn til lögreglunnar sem fór strax á staðinn og kallaði síðan til sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Um var að ræða umtalsvert magn af riffil- og skambyssuskotum, allt merkt ártalinu 1941 auk forsfórblysa.
Landhelgisgæslan segir, að svo líti út sem skotfærin og blysin hafi verið urðuð þarna á stríðsárunum, en þá voru mikil hernaðarumsvif við Reykjavíkurflugvöll.
Allt efnið var grafið upp, fjarlægt og því eytt af sprengjusérfræðingum Landhelgisgæslunnar.
Stofnunin vill af þessu tilefni beina þeim tilmælum til almennings, sem kynni að rekast á skotfæri eða sprengjur, að hreyfa ekki við hlutunum heldur hafa tafarlaust samband við lögreglu eða stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, í síma 112. Sama gildi ef fólk hefur í fórum sínum gömul skotfæri eða sprengjur en þá er það hvatt til að hafa samband og koma því til eyðingar hjá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar þar sem gamalt sprengiefni getur verið mjög hættulegt.