Þurfa að fara rúmlega 17 þúsund ferðir með jarðveg

Verktakafyrirtækið Klæðning hefur hafið flutning á jarðvegi úr grunni bílastæðishúss og hótels sunnan við tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Reykjavíkurhöfn og verða fluttir þaðan um 300.000 rúmmetrar af jarðvegi á næstu mánuðum en áætluð verklok eru 1. mars á næsta ári. Vörubílar þurfa að fara rúmlega 17 þúsund ferðir með jarðveginn.

Karl Helgi Jónsson, yfirverkstjóri hjá Klæðningu, segir að verkið sé rétt að byrja og allar tímasetningar geti breyst vegna hugmynda um að leggja Geirsgötuna í stokk á svæðinu.

Að sögn Karls verða um sinn notaðir átta flutningabílar og tvær stórar þungavinnuvélar til þess að fleyga klöppina og moka á bílana, en grafið verður niður á allt að sjö metra dýpi fyrir neðan sjávarmál. Jarðvegurinn fer í uppfyllingu í Sundahöfn neðan við Klepp og þar sem stutt sé að fara þurfi ekki marga bíla í flutninginn að svo stöddu.

Á annað hundrað þúsund fermetrar af jarðvegi voru fjarlægðir úr grunni tónlistar- og ráðstefnuhússins og er því ljóst að færa þarf til mikinn jarðveg vegna framkvæmdanna. Einn malarflutningabíll með tengivagni tekur um 17 rúmmetra og hver bíll fer því nokkrar ferðirnar. Auk þess þarf að huga að bökkunum og tryggja að þeir falli ekki niður. Grjót er fleygað á staðnum og það notað í fyllingar á svæðinu. Karl bendir á að með því sparist miklir flutningar á efni en fyrir utan jarðvegsflutninga þarf að dæla miklu magni af sjó upp úr grunninum og er gert ráð fyrir að tonnin verði nokkrar milljónir í verklok.

Klæðning á færanlega þvottastöð fyrir flutningabílana og stendur til að koma henni fyrir í grunninum, að sögn Karls. Hann segir að hún hafi áður verið í Vatnsmýrinni og síðan hafi hún verið lánuð vegna framkvæmda við Háskólann í Reykjavík, en í báðum tilfellum hafi jarðvegurinn verið fluttur mun lengri leið eða á Hólmsheiði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert