Árið 2007 gengu 1708 pör í hjónaband, samkvæmt tölum, sem Hagstofan hefur birt. Auk þess staðfestu 19 pör samkynhneigðra samvist, tíu pör karla og níu kvenna. Á sama tíma skráðu 2089 gagnkynhneigð pör sig í óvígða sambúð.
Með lögum árið 2006 var samkynhneigðum gert kleift að skrá sig í sambúð hjá Þjóðskrá. Það ár skráðu sig 52 pör samkynhneigðra í sambúð. Árið 2007 féll þessi tala í 32 pör, 13 pör karla og 19 kvenna. Lögskilnaðir árið 2007 voru 515 og 603 pör skráðu sig úr sambúð.
Hagstofan segir, að giftingartíðni sé fremur lág hér á
landi, líkt og á öðrum Norðurlöndum. Giftingartíðni reiknuð sem fjöldi hjónavígsla á hverja 1000
íbúa var 5,5 árið 2007 samanborið við 5,8 ári fyrr. Giftingartíðni
lækkaði ört frá miðjum 8. áratugnum og náði sögulegu lágmarki árið 1990
en þá var giftingartíðni 4,5 af hverjum 1000 íbúum. Eftir það hækkaði
giftingartíðnin og hefur verið á bilinu 5,2 til 5,8 frá síðustu
aldamótum.
Langflest hjónabönd eiga sér stað að undangenginni
óvígðri sambúð. Samkvæmt upplýsingum af hjónavígsluskýrslum bjuggu 85%
allra hjónaefna saman áður en þau festu ráð sitt. Skráðar sambúðir eru
alla jafna fleiri en hjónavígslur. Stofnaðar sambúðir voru 6,7 af 1.000
íbúum árið 2007.
Meðalgiftingaraldur og meðalaldur við stofnun
sambúðar hefur hækkað ört undanfarna áratugi. Lægstur varð
meðalgiftingaraldur í upphafi 8. áratugar 20. aldar en þá voru áður
ógiftir karlar 24,8 ára þegar þeir gengu í hjónaband en konur 22,9 ára.
Nú er meðalgiftingaraldur áður ógiftra karla 34 ár en kvenna 31,9.
Meðalaldur við stofnun sambúðar er 29,3 ár meðal karla en 27,2 ár meðal
kvenna.
Þótt giftingartíðni hafi hækkað á undanförnum árum hefur skilnaðartíðni
staðið í stað. Skilnaðartíðni hækkaði úr um það bil 1 í 2 á hverja
1000 íbúa á 8. áratug 20. aldar en hefur verið stöðug síðan þá.
Samanborið við önnur lönd í norðan- og vestanverðri Evrópu er
skilnaðartíðni hér á landi lág. Af einstökum Norðurlöndum er
skilnaðartíðni hæst í Danmörku (um 2,8 á 1000 íbúa).
Svonefnt uppsafnað
skilnaðarhlutfall, sem mælir hversu mörg hjónabönd enda með skilnaði, var 34% árið 2007 miðað við 35% árið 2006. Hagstofan segir, að alls
staðar á Norðurlöndum sé uppsafnað skilnaðarhlutfall hærra en hér, hæst
í Svíþjóð en þar enda 55% hjónabanda með skilnaði.