Aukin þjónusta um borð í vélum Iceland Express

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express. mbl.is/Jón Pétur

„Við höfum verið að skerpa ímynd félagsins og það hvað við stöndum fyrir. Við viljum vera félag sem býður upp á aukna þjónustu, en þó þannig að fólk geti valið það sjálft,“ segir Matthías Imsland, forstjóri flugfélagsins, sem kynnti í dag nýjungar í vélum Iceland Express.

Meðal þess sem fyrirtækið býður nú farþegum sínum upp á er heilsufæði, barnabox og ferðafélaga, sem ætlað er að stytta fólki stundir á leið þeirra út í heim. Þetta var kynnt á blaðamannafundi í Berlín í dag.

Ferðamenn geta nú horft á íslenskar og erlendar kvikmyndir og sjónvarpsþætti í ferðafélaganum. Auk þess er boðið upp á barnaefni og tölvuleiki. Iceland Express er fyrsta lággjaldaflugfélagið í Evrópu sem býður upp á slíka þjónustu um borð.  

Iceland Express hefur gert samning við Ávaxtabílinn um sölu á hollusturéttum um borð í vélunum. Í matnum er því enginn viðbættur sykur, engin sætuefni og engin hert fita að sögn forsvarsmanna Iceland Express.

Þá er boðið upp á barnabox handa yngstu ferðalöngunum, en þar er að finna létta máltíð auk lita- og þrautabókar.

 „Við erum bæði að uppfylla kröfur viðskiptavina okkar, og við erum líka að leggja áherslu á okkar ímynd. Við viljum vera félag sem stendur fyrir sveigjanleika, þjónustu og gæði,“ segir Matthías.

„Við höfum verið að stækka mjög hratt, en samt skynsamlega, og við ætlum að halda því áfram,“ segir Matthías Imsland.

„Í dag erum við með betri bókunarstöðu en í fyrra, sem var besta rekstrarár félagsins frá upphafi. Við erum með betri bókunarstöðu þrátt fyrir að við höfum aukið framboðið. Hins vegar verðum við að fylgjast vel með hvernig ástandið er á mörkuðum. [...] Á einhverjum tímapunkti gæti orðið samdráttur hjá okkur, en við erum ekki farin að verða vör við hann af einhverju ráði.“

María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Iceland Express, sést hér halda á …
María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Iceland Express, sést hér halda á ferðafélaganum sem farþegum flugfélagsins stendur nú til boða. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert