Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði í umræðu á Alþingi í kvöld um símhleranir, að fráleitt sé að halda því fram að dómarar á síðustu öld hafi verið viljalaus verkfæri í höndum dómsmálaráðherra, slíkar fullyrðingar séu dæmalaus óvirðing við þá dómara sem í hlut áttu.
Björn sagði, að Þórður Björnsson, sakadómari, hefði árið 1968 heimilað slíkar hleranir. Þórður hefði lengi verið borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og harður andstæðingur Sjálfstæðisflokks. „Á að trúa því að þessi áhrifamaður í Framsóknarflokksins, sem þá var raunar í harðri stjórnarandstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum, hafi heimilað dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að stunda pólitískar njósnir um andstæðinga sína," sagði Björn.
Umræðan fór fram að ósk Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingar, í tilefni af grein sem Kjartan Ólafsson, fyrrum alþingismaður og ritstjóri Þjóðviljans, skrifaði í Morgunblaðið í gær. Þar upplýsti Kjartan að símar á 32 heimilum hefðu verið hleraðir á árunum 1949-1968 vegna óska frá stjórnvöldum.
Helgi sagði mikilvægt að dómsmálaráðherra ítreki að viðhorf stjórnvalda séu breytt frá því sem var á þessum tíma. Hann vísaði til þess, að Björn Bjarnason hafi sagt í fjölmiðlum að hann sjái ekki tilefni til þess að stjórnvöld biðjist afsökunar á þessum hlerunum en spurði hvort ráðherra sæi aðra leið til að ljúka þessu máli gagnvart þeim, sem á var brotið.
Björn sagði, að það væri óþekkt að dómsmálayfirvöld biðjist afsökunar á gerðum dómara. Einstaklingar gætu sótt rétt sinn til dómstóla ef þeir teldu á sér brotið.
Þá sagði Björn ástæðulaust að gleyma því að Kjartan Ólafsson hefði verið framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, sem hafði á stefnuskrá sinni að ná völdum með ofbeldi. Hann hefði einnig verið einn helsti milligöngumaður við bræðraflokkinn í Austur-Þýskalandi, sem hefði staðið fyrir mestu persónunjósnum allra tíma.
Björn sagði, að formaður miðstjórnar Sósíalistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason, hefði hótað þingmönnum aftöku áður en gengið var til atkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalagsins. Þá hefðu sósíalistar og kommúnistar ekki hikað við að beita valdi í þágu síns málstaðar. Lögregla hefði verið fáliðuð og illa búin og sú stefna hefði verið mótuð að lögregla skyldi treysta á almenna borgara sér til aðstoðar.
„Í þessari varnarráðstöfun er að finna skýringu á öllum símahlerunum. Lögregla fór fram á milligöngu dómsmálaráðuneytis gagnvart dómstólum um þær heimildir sem veittar voru. Hér var um lið í lögregluaðgerðum að ræða," sagði Björn.
Sumir þingmenn tóku ræðu dómsmálaráðherra afar illa og sagði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, að hún hefði verið lúaleg. Helgi Hjörvar sagði að ummæli dómsmálaráðherra yllu vonbrigðum og vektu áhyggjur. Sagði hann að ráðherrann yrði að eiga það við sóma sinn, að veitast að nafngreindu látnu fólki, þar á meðal alþingismönnum, úr ræðustóli Alþingis.
Helgi sagði það fjarri öllu lagi að tala um glæpa- og ofbeldissamtök. Í hlut hefðu átt heiðarlegir Íslendingar sem reyndu að berjast fyrir sannfæringu sinni.
Björn sagði, ef ekki mætti rifja upp sögulegar staðreyndir í þingsalnum um atburði sem urðu í þingsalnum þá er hræsnin orðin of mikil. Menn gætu dregið mismunandi ályktanir af staðreyndum en það hefði ekkert komið fram, sem sýndi að lögbrot hafi verið framin á einstaklingum eða að ólöglega hafi verið staðið að málum.