Eldur kviknaði á geymslusvæðinu fyrir utan áhaldahúsið á Heiðarvegi í Vestmannaeyjum í morgun. Tilkynnt var um eldinn klukkan 5.30 í morgun. Meðal þess sem brann var mylla sem notuð er til skrauts á þjóðhátíð.
Einnig kviknaði í litla sviðinu og svo brann líka hluti af þakinu á stóra sviðinu en þetta eru einnig munir sem notaðir eru á þjóðhátíð.
Slökkviliðið í Vestmannaeyjum er búið að slökkva eldinn og gekk það vel, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Eldsupptök eru ókunn.