Á morgun verða hraðamyndavélar á Garðskagavegi og Sandgerðisvegi á Suðurnesjum teknar í notkun. Uppsetning vélanna er liður í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda og tilgangurinn að draga úr ökuhraða á þjóðvegum og fækka umferðarslysum.
Samgönguráðuneytið, ríkislögreglustjóri, Umferðarstofa og Vegagerðin vinna að uppsetningu hraðamyndavélanna. Vélarnar eru stafrænar og verða upplýsingar um hraðabrot sendar samstundis til lögreglunnar.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ekki verði tekin mynd nema um brot sé að ræða og að myndatakan hafi verið heimiluð af Persónuvernd.