Íslendingur var stunginn fimm til sex sinnum í kviðinn í söluturni á horninu á Colbjørnsensgade og Istedgade á Vesturbrú í Kaupmannahöfn skömmu eftir miðnætti í nótt. Þetta kemur fram á vef Ekstra Bladet. Maðurinn var fluttur á Ríkissjúkrahúsið og er ástand hans stöðugt og hann er ekki í lífshættu, að sögn lögreglu.
Ekstra Bladet segir, að Íslendingurinn hafi verið ásamt kunningja sínum inni í söluturninum og lent í rifrildi við afgreiðslumanninn. Þær deilur hafi endað með því að afgreiðslumaðurinn réðist á Íslendinginn og stakk hann með hnífi.Íslendingurinn flúði út úr söluturninum og hitti þar lögreglumenn, sem voru við fíkniefnaeftirlit. Honum var veitt aðhlynning í lögreglubíl og hann var síðan fluttur á sjúkrahús.
Árásarmaðurinn og vinur hans lögðu á flótta en þeir voru handteknir skömmu síðar í Reverdilsgade sem er í nágrenni árásarstaðarins. Gerð verður krafa um það í dag að árásarmaðurinn verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.