Stjórn Landsvirkjunar hefur ákveðið að ganga til samninga við Ístak um að ljúka framkvæmdum við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar. Í kjölfar gjaldþrots Arnarfells, sem upphaflega var með verkið, stofnaði Landsvirkjun dótturfélagið Hraunaveitu ehf. og yfirtók verkefnið og hluta af starfsmönnum við framkvæmdirnar. Formlegt veitingarbréf til Ístaks verður sent út nú í vikunni.
Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar hjá Landsvirkjun, segir Ístak byrjað að ræða við starfsmenn Hraunaveitu ehf. um áframhaldandi störf að verkefninu. Vonir standi til að það gangi upp að mestu og mannaskipti verði sem allra minnst. 130 vinna nú við Hraunaveitu, Íslendingar og útlendingar til helminga. Starfsmönnum mun þó fjölga í um 250 í sumar. Ístak bauð í gerð Hraunaveitu ásamt Arnarfelli og nam tilboðið tæpum 2,2 milljörðum króna án virðisaukaskatts. Samið er nú við Ístak á þeim grunni. Um er að ræða vinnu við Kelduá, öll göng og framkvæmdir þar fyrir austan og lok vinnu við Jökulsárveitu og Ufsarstíflu.