Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá því að skipt var yfir í hægri umferð er nú haldin sérstök umferðaröryggisvika á vegum Umferðarráðs. Klukkan 13:00 í dag munu annars árs nemendur Listaháskóla Íslands hefjast handa við að raða upp hundruðum skópara framan og til hliðar við Dómkirkjuna.
Fjöldi skóparanna verður nákvæmlega sá sami og sem nemur fjölda þeirra einstaklinga sem látið hafa lífið í umferðinni á undanförnum 40 árum eða frá H-deginum svonefnda 26. maí 1968.
Þetta verkefni nemenda Listaháskólans er hugsað sem táknmynd þeirra fórna sem íslenska þjóðin hefur fært á vegum landsins. Fórna sem í flestum tilfellum hefði mátt koma í veg fyrir, að því er segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.
Á meðan á þessu stendur verður kyrrðarstund í Dómkirkjunni og hefst hún klukkan 12:10.