Mýflugustofnar við Mývatn eru nú með stærsta móti. Á vatnsbotninum eru nú um 40 þúsund lirfur á hverjum fermetra og munu púpa sig á næstu dögum og stíga til yfirborðs með aðstoð lítillar loftbólu sem myndast undir húðinni. Verður þá vatnið alþakið mýi sem leitar næsta lands svo fljótt sem verða má.
Er von á þykkum mýfluguskýjum við vatnsbakkann allt umhverfis Mývatn, mest þó þar sem höfðar skaga út í vatnið og enn frekar ef flugurnar fá skjól af trjágróðri. Fyrsta mýgangan er þegar farin að kvikna, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem var tekin í Höfða við Mývatn í vikunni, samkvæmt upplýsingum frá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn.
Við Mývatn er nú hópur bandarískra vísindamanna frá háskólanum í Wisconsin að rannsaka mýið í samvinnu við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Nota þeir meðal annars stórvirkar ryksugur til að safna mýflugunum.
„Hafa einhverjir haft á orði að þær gætu komið sér vel þegar mývargurinn kviknar fyrir alvöru og halda þarf þjóðhátíðarsamkomuna í Höfða 17. júní næstkomandi. Margir eiga bitsárar minningar frá þeim samkomum. Er skemmst að minnast þess er sóknarpresturinn varð að gera hlé á sjálfu faðirvorinu á samkomunni í hitteðfyrra meðan verstu atlögurnar stóðu," að sögn Árna Einarssonar, forstöðumanns náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn.