Kristján L. Möller, samgönguráðherra segist bjartsýnn á að strandsiglingar hefjist umhverfis Ísland að nýju. Hann sagði í kvöldfréttum Rúv að hann væri á þeirri skoðun að það gengi ekki nema með styrkjum frá hinu opinbera. „Í næstu viku eru bókaðir til mín tveir aðilar til að ræða um strandsiglingar, væntanlega á markaðslegum forsendum," sagði ráðherrann.
Kristján sagði að það hafi verið reynt að halda úti strandsiglingum á markaðslegum forsendum áður og að það hafi ekki gengið. „Við verðum að skoða hinn þáttinn," sagði Kristján.
Ráðherrann sagðist fullviss um að Íslendingar ættu eftir að taka upp strandsiglingar að nýju.